154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði hérna um þjónustuna, sem mér finnst mjög áhugaverð og það er búin að vera áhugaverð umræða hérna um þennan stöðugleika sem Sjálfstæðisflokkurinn eignar sér alltaf. Samt er efnahagskerfið alltaf í einhverju hoppi og skoppi fram og til baka þegar í raun og veru þarf að tala um þjónustuna; biðlistana sem eru alls staðar í heilbrigðiskerfinu, kaup og kjör þeirra sem lifa af almannatryggingum, menntakerfið eins og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra kom inn á að væri hætt komið hvað það varðar að styðja við farsæld og jöfnuð barna í skólakerfinu og því þyrfti að sameina í framhaldsskólum. Það eru ótrúlegar lýsingar sem þar komu fram. Maður veltir því fyrir sér hvort við séum ekki alltaf að horfa á rangan stöðugleika, að við eigum að einbeita okkur að því að tryggja stöðugleika í þjónustu og gagnvart þeim lögum sem eru sett hérna á þingi og fjármögnun á þeirri þjónustu. Hitt verður síðan að fylgja því.